Fara í innihald

Vogaflugvöllur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 6. apríl 2011 kl. 11:22 eftir Navaro (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. apríl 2011 kl. 11:22 eftir Navaro (spjall | framlög) (Ný síða: thumb|right|Flugvél Atlantic Airways á Vágaflugvelli. '''Vágaflugvöllur''' (færeyska: ''Vága Floghafn'', enska: ''Vágar Airport'') er e...)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Flugvél Atlantic Airways á Vágaflugvelli.

Vágaflugvöllur (færeyska: Vága Floghafn, enska: Vágar Airport) er eini flugvöllurinn í Færeyjum, um 2 km austan við Sørvág á eynni Vágar. Þar eru höfuðbækistöðvar færeyska flugfélagsins Atlantic Airways, auk þess sem flogið er þaðan með þyrlum til nokkurra áfangastaða innan eyjanna.

Verkfræðideild breska hersins lagði flugvöllinn í síðari heimsstyrjöldinni og að stríðinu loknu var honum breytt í alþjóðaflugvöll. Danska flugmálastjórnin hafði völlinn í sinni umsjá til 1. maí 2007 en þá var hann afhentur Færeyingum. Flugbrautin er aðeins 1250 metrar á lengd og geta því aðeins flugvélar sem þurfa tiltölulega stutta braut til flugtaks og lendingar notað hann. Fyrirhugað er að lengja flugbrautina í 1799 metra og reisa nýja flugstöð.

Áður sigldi ferja milli Vága og Þórshafnar en árið 2002 voru opnuð jarðgöng yfir til Straumeyjar og er því hægt að aka á milli Þórshafnar og flugvallarins. Áætlunarflug er meðal annars til Kaupmannahafnar, Reykjavíkur, Aberdeen, London, Óslóar, Stafangurs og Narsarsuaq á Grænlandi.

Flugslys

Þann 26. september 1970 fórst Fokker F27-flugvél Flugfélags Íslands skömmu fyrir lendingu á Vágaflugvelli. Vélin var í áætlunarflugi frá Kaupmannahöfn með millilendingu í Björgvin en veðuraðstæður voru slæmar í Færeyjum og vélin rakst á fjallshlíð á Mykinesi. Í vélinni voru 34 og átta þeirra fórust en margir slösuðust illa og þurfti að flytja þá af slysstað á þyrlum.

Þann 3. ágúst 1996 fórst Gulfstream III-flugvél danska flughersins í aðflugi að Vágaflugvelli í slæmu veðri og lélegu skyggni. Níu manns fórust, þar á meðal danski varnarmálaráðherrann Jørgen Garde og eiginkona hans.

Heimildir

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Vágar Airport“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. apríl 2011.
  • „Sex Íslendingar meðal 34 um borð. Morgunblaðið, 27. september 1970“.