Fara í innihald

Umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna 1972

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 13. janúar 2014 kl. 13:12 eftir Akigka (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. janúar 2014 kl. 13:12 eftir Akigka (spjall | framlög)
(breyting) ← Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)

Umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna 1972, Ráðstefna um verndun umhverfis mannsins eða Stokkhólmsráðstefnan var stór ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál sem var haldin að undirlagi Svíþjóðar í Stokkhólmi 5.-16. júní 1972. Svíar stungu upp á ráðstefnunni á vettvangi Efnahags- og félagsmálaráðsins árið 1968. Ráðstefnan er af ýmsum talin marka upphaf samvinnu um umhverfismál á vegum Sameinuðu þjóðanna.

113 lönd tóku þátt í ráðstefnunni. Að auki sendu hundruð félagasamtaka fulltrúa til ráðstefnunnar. Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar og Kurt Waldheim aðalritari Sameinuðu þjóðanna héldu ræður við opnun ráðstefnunnar.

Þekktustu niðurstöður ráðstefnunnar eru skýrslan Aðeins ein jörð sem franski líffræðingurinn René Dubois og breski hagfræðingurinn Barbara Ward sömdu að beiðni aðalskrifstofunnar og Stokkhólmsyfirlýsingin í 26 liðum sem fjalla vítt og breitt um umhverfi, þróun, kynþáttaaðskilnað og gjöreyðingarvopn. Eitt af þeim málum sem rædd voru á ráðstefnunni voru tengsl fátæktar og umhverfismála sem forsætisráðherra Indlands, Indira Gandhi, rökstuddi í ræðu sinni.

Á ráðstefnunni kynntu Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin drög að sáttmála um lista yfir heimsminjar sem þeir höfðu unnið að frá 1962, einkum með það í huga að skapa alþjóðlegan stuðning fyrir þjóðgarða. Síðar sama ár tók UNESCO þennan sáttmála upp.