Fara í innihald

Katrín af Aragóníu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Skjaldarmerki Trastámara Drottning Englands
Trastámara
Katrín af Aragóníu
Katrín af Aragóníu
Ríkisár 1509 - 1533
SkírnarnafnCatalina de Aragón y Castilla
Fædd16. desember 1485
 Alcalá de Henares, Spáni
Dáin7. janúar 1536
  Kimbolton kastala, Englandi
GröfPeterborough, Englandi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Ferdinand II af Aragóníu
Móðir Ísabella I af Kastilíu
MakarArtúr, Prins af Wales (1501-1502),
Hinrik VIII (1509-1533)
BörnHinrik, hertogi af Cornwall,
María 1. Englandsdrottning

Katrín af Aragóníu (enska: Katherine of Aragon, spænska: Catalina de Aragón) (16. desember 14857. janúar 1536) Englandsdrottning. Katrín var dóttir Ísabellu af Kastilíu og Ferdinands af Aragóníu. Þegar hún var þriggja ára var hún trúlofuð Artúri, krónprinsi Englands. Þau giftust 1501 en Artúr lést einungis fimm mánuðum seinna eftir skammvinn veikindi. Örlög Katrínar voru óljós um nokkurt skeið. Árið 1507 þjónaði hún sem sendiherra aragónísku krúnunnar í Englandi, fyrst kvenna í sögu Evrópu. Eftir andlát móður Artúrs, Elísabetar af York, íhugaði Hinrik VII að giftast sjálfur ekkju sonar síns en ekkert varð úr því. Árið 1507 þjónaði hún sem sendiherra aragónísku krúnunnar í Englandi, fyrst kvenna í sögu Evrópu.

Eftir andlát konungs árið 1509 ákvað hinn nýkrýndi konungur Hinrik VIII, yngri bróðir Artúrs, að giftast Katrínu og þar með endurnýja hagsmunatengsl Spánar og Englands. Samkvæmt kirkjulögum þess tíma var ekki sjálfgefið að maður gæti kvænst ekkju bróður síns en Katrín sór eið þess efnis að hjónabandið hefði aldrei verið fullkomnað og í kjölfarið gaf páfinn leyfi fyrir hjúskapnum.

Katrín giftist Hinriki í 11. júní 1509 og var krýnd drottning 23. sama mánaðar, Katrín þá 23 ára og Hinrik 17 ára. Katrín virtist til að byrja með njóta mikils trausts konungs, en þegar Hinrik fór til Frakklands árið 1513 skipaði hann eiginkona sín sem ríkisstjóra í fjarveru sinni. Svo fór að á meðan konungur var utan gerði konungur Skotlands, Jakob IV, innrás í England. Katrín lét kalla til herlið og fór sjálf brynjuklædd og barnshafandi norður til að hafa umsjón með stríðsrekstrinum og hvetja hermenn sína til dáða.

Þar sem faðir Hinriks var fyrsti konungur af Túdor-ættinni voru hjónin undir miklum þrýstingi til að skaffa konungdæminu erfingja. Katrín varð fljótt barnshafandi en fyrsta barn þeirra fæddist andvana. Þann 1. janúar 1511 eignaðist hún son sem fékk nafnið Hinrik. Þetta vakti mikinn fögnuð og allt virtist benda til þess að framtíð konungsættarinnar væri trygg en krónprinsinn lést innan tveggja mánaða. Katrín eignaðist tvo aðra syni næstu ár en hvorugur lifði nógu lengi til að fá nafn.

Árið 1516 fæddist eina barn hjónanna sem komst á legg. Það var dóttir sem fékk nafnið María. Þrátt fyrir þetta var erfðaröðin ekki trygg. Fram að þeim tíma hafði engin drottning ríkt undir eigin nafni og virtist því ólíklegt að María myndi verða fyrst til þess. Þrýstingurinn á Hinrik og Katrínu til að geta af sér erfingja varð enn meiri næstu árin en ekkert gekk.

Þegar Katrín var komin af barnsburðaraldri fór konungur að leita lausna til þess að komast út úr hjónabandinu. Árið 1527 leitaði Hinrik til páfa til að ógilda hjónabandið á þeim forsendum að hann hefði í raun ekki mátt giftast ekkju bróður síns. Katrín barðist harkaleg gegn þessum málaleitunum. Hún sór að hún hefði verið skírlíf í fyrra hjónabandinu og því væru engar forsendur til þess að ógilda hið seinna. Ef Hinrik fengi vilja sínum framgengt var ljóst að það væri ekki bara til að skaða hagsmuni Katrínar sjálfrar heldur einnig leiða til þess að María dóttir þeirra yrði talin óskilgetin.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði Hinrik að öllum líkindum átt auðvelt með að fá ósk sína samþykkta af páfa en aðstæður voru flóknar. Páfinn, Klement VII., var í raun fangi Karls V keisara Hins Heilaga rómverska ríkis. Keisarinn var einnig konungar Spánar og sonur Jóhönnu af Kastilíu, systur Katrínar. Klement VII var því undir miklum þrýstingu frá systursyni Katrínar að hafna beiðni Hinriks. Málið tafðist um áralangt skeið og byrjaði konungur að ráðast gegn valdi páfa á Englandi. Árið 1531 var Katrín gerð útlæg úr hirðinni en það var ekki fyrr en 1533 að Hinrik lýsti því sjálfur yfir að hjónaband þeirra væri ógilt. Í kjölfarið kvæntist konungurinn Önnu Boleyn.

Katrín leit á sig sem löglega eiginkonu Hinriks til dauðadags en hann taldi hana einungis ekkju bróður síns. Þegar hún lést árið 1536 mætti konungurinn ekki í jarðarför hennar og bannaði einnig dóttur þeirra, sem nú var talin óskilgetin, að vera viðstödd. Þáverandi eiginkona Hinriks, Anna Boleyn, fagnaði andláti keppinautar síns en nokkrum mánuðum seinna var hún tekin af lífi og dóttir hennar var, líkt og dóttir Katrínar, lýst óskilgetin. Svo fór þó að dætur þeirra beggja, systurnar Elísabet og María, urðu fyrstar kvenna til að ríkja yfir Englandi í eigin nafni.