Fara í innihald

Theodosius 1.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Þeódósíus 1.)
Theodosius 1.
Rómverskur keisari
Valdatími 379 – 395
með Gratianusi (379 – 383)
með Valentinianusi 2. (379 – 392)
með Maximusi (383 – 388)

Fæddur:

11. janúar 347
Fæðingarstaður Coca (á núverandi Spáni)

Dáinn:

17. janúar 395
Dánarstaður Mediolanum (Mílanó)
Forveri Valens, Gratianus og Valentinianus 2.
Eftirmaður Honorius og Arcadius
Maki/makar Aelia Flaccilla
Galla
Börn Arcadius,
Honorius,
Pulcheria og
Galla Placidia
Faðir Theodosius eldri
Móðir Thermantia
Fæðingarnafn Flavius Theodosius
Keisaranafn Flavius Theodosius Augustus
Ætt Theodosíska ættin

Flavius Theodosius (11. janúar 347 – 17. janúar 395), einnig þekktur sem Theodosius 1. eða Theodosius mikli (einnig skrifað Þeódósíus á íslensku), var keisari Rómaveldis frá 379 til 395 og var síðasti keisarinn sem ríkti yfir öllu heimsveldinu.

Theodosius var sonur Theodosiusar eldri sem var helsti hershöfðingi Valentinianusar 1. keisara. Theodosius eldri var einn hæfasti herstjórnandi Rómverja á þessum tíma en stuttu eftir að Valentinianus 1. lést virðist hann hafa fallið í ónáð og árið 376 var hann handtekinn og tekinn af lífi. Theodosius yngri var einnig herforingi hjá Valentinianusi 1. og barðist gegn germönum við Dóná.

Nokkrum mánuðum eftir að Valens, keisari yfir austurhluta Rómaveldis, lést árið 378 var Theodosius útnefndur keisari yfir austurhlutanum af Gratianusi, sem þá var keisari í vesturhlutanum ásamt Valentinianusi 2. Mikill vandi blasti strax við Theodosiusi því hann þurfti að takast á við stóran her Gota sem höfðu gersigrað Rómverja í orrustunni við Adrianopel og drepið Valens keisara. Theodosiusi tókst að halda Gotunum í skefjum og eftir nokkur ár af átökum og samningaviðræðum var samið um að Gotarnir fengju að setjast að innan Rómaveldis sem bandamenn (foederati) Rómverja en fengu að stjórna sér sjálfir og voru því ekki undir valdi rómarkeisara. Gratianus lést í uppreisn árið 383 og í kjölfarið lýsti Magnus Maximus sjálfan sig keisara yfir vesturhluta Rómaveldis. Theodosius hafði ekki tök á því að takast á við Maximus á þeim tímapunkti og neyddist því til að viðurkenna hann sem keisara. Valentinianus 2. var ennþá keisari á Ítalíu en hann var ekki nema ellefu ára þegar Gratianus lést og var því ekki nema handbendi annarra valdamanna. Maximus hélt með her sinn til Ítalíu árið 387 og neiddist Valentinianus þá að flýja til Theodosiusar. Theodosius leit á Valentinianus sem bandamann sinn og fór hann því með her til Ítalíu og mætti Maximusi í orrustu og sigraði hann. Magnus Maximus var tekinn af lífi stuttu síðar. Valentinianus 2. lést árið 393 og varð Theodosius þá einn keisari yfir öllu Rómvaveldi, en þurfti þó að verja stöðu sína gegn valdaræningjanum Eugeniusi. Eugenius og Theodosius mættust í orrustunni við Frigidus árið 394 þar sem Theodosius sigraði. Þegar Theodosius lést árið 395 var Rómaveldi varanlega skipt í austur- og vesturhluta og synir hans tóku við af honum, Arcadius í austurhlutanum og Honorius í vesturhlutanum.

Theodosius gerði kristna trú að einu löglegu trúarbrögðunum í Rómaveldi og batt þar með endanlega enda á stuðning ríkisins við hin hefðbundnu rómversku trúarbrögð. Segja má að Theodosius hafi beitt alla þá sem hann áleit vera heiðingja ofsóknum, bæði þá sem aðhylltust rómverska goðafræði og kristna hópa sem aðhylltust aðrar kenningar en hann.


Fyrirrennari:
Valens
Keisari Rómaveldis
(379 – 395)
Eftirmaður:
Arcadius og Honorius