Fara í innihald

ALMC

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
ALMC hf.
Rekstrarform hlutafélag
Stofnað 2005 (undir nafninu Straumur-Burðarás)
Staðsetning Katrínartúni 2
105 Reykjavík
Starfsemi Eignaumsjón
Vefsíða almc.is

ALMC hf. (áður Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf.) er íslenskt eignarhaldsfélag, sem varð upphaflega til við samruna fyrirtækjanna Burðaráss og Straums árið 2005. Straumur-Burðarás gerði neyðarsamninga í kjölfar Bankahrunsins árið 2008. Fyrirtækið breytti nafni sínu árið 2010 og varð þá eignaumsýslufélag gamla Straums-Burðaráss. Kröfuhafar gamla félagsins féllust á að gerast hluthafar í því nýja. Árið 2011 gerði sérstakur saksóknari húsleit í höfuðstöðvum ALMC í tengslum við rannsókn á Hrunmálum. Árið 2016 komst félagið í fréttir fyrir háa bónusa til þáverandi og fyrrverandi starfsfólks.

Árið 1914 var Eimskipafélag Íslands stofnað. Félagið sá um skiparekstur milli Íslands og útlanda. Árið 1989 var Burðarás stofnað og sá um fjárfestingar Eimskipafélagsins í öðrum rekstri. Þremur árum síðar var Eimskipafélaginu skipt upp í þrjár sjálfstæðar einingar, eina til að sjá um fiskveiðimál, aðra til að sjá um flutninga, bæði á sjó og landi en sú þriðja átti að sjá um fjárfestingar. Þannig varð Burðarás að dótturfélagi Eimskipa. Árið 2002 eignaðist Landsbanki Íslands meirihluta í Eimskipum. Breytingar urðu þá á félaginu. Fyrst var útgerðin, sem bættist við Eimskipafélagið árið 1999 við yfirtöku á nokkrum sjávarútvegsfyrirtækjum, seld frá félaginu. Burðarás var síðan gert að móðurfélagi. Að lokum var skipareksturinn seldur frá Burðarási árið 2005.

Fjárfestingarfélagið Straumur var stofnað árið 2001 upp úr Hlutabréfasjóðnum og VÍB. Straumur keypti í framhaldi af því Brú fjárfestingar og fjárfestingabankann Framtak og fékk fjárfestingabankaleyfi árið 2004.

Í ágúst 2005 var ákveðið í framhaldi af stjórnarfundum Burðaráss, Straums, Eimskipafélags Íslands og Landsbanka Íslands að sameina Straum og Burðarás. Úr þessu varð stofnun Straums-Burðaráss í október 2005, stærsta fjárfestingarbanka á Íslandi.

Fjármálaeftirlitið beitti neyðarlögunum á Straum Burðarás þann 9.Mars 2009 til að bjarga tugmilljarða innistæðum sem Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir áttu í bankanum og yfirtók rekstur hans, vegna þessa féllu hlutabréf í félaginu niður um 98,83% þann sama dag í Kauphöll Íslands. Félagið gekkst í kjölfarið undir nauðasamninga og var skipt árið 2010, þannig að nýtt félag, ALMC hf. í eigu kröfuhafa Straums-Burðaráss var stofnað utan um eignir og skuldir félagsins.