Pan American World Airways
Pan American World Airways, almennt kallað Pan Am, var helsta flugfélag Bandaríkjanna frá stofnun árið 1927 þar til það varð gjaldþrota árið 1991. Upphaflega var félagið stofnað til að sinna póst- og farþegaflutningum milli Key West í Flórída og Havana á Kúbu. Fyrirtækið átti þátt í ýmsum nýjungum á sviði flugsamgangna eins og notkunar þotna og síðar júmbóþotna í farþegaflutningum og tölvuvæddra bókunarkerfa. Heimaflugvöllur Pan Am var Worldport (Terminal 3) á John F. Kennedy International Airport í New York-borg.
Olíukreppan 1973 hafði slæm áhrif á rekstur fyrirtækisins. Árið 1988 sprakk sprengja í flugi Pan Am yfir Lockerbie í Skotlandi með þeim afleiðingum að 270 létust. Fyrirtækið hafði ekki rétt úr kútnum eftir það áfall þegar Fyrra Persaflóastríðið hófst árið 1990. Eftirspurn hrundi og Pan Am neyddist til að lýsa sig gjaldþrota 8. janúar 1991. Flugfélagið hætti starfsemi 4. desember sama ár. Pan Am var þriðja stóra bandaríska flugfélagið sem hætti starfsemi þetta ár, á eftir Eastern Air Lines og Midway Airlines.