Fara í innihald

Tonle Sap

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Á kortinu af Kambódíu má greinilega sjá mikilvægi Tonle Sap í landslaginu.

Tonle Sap (sem þýðir á khmer: Vatnið mikla, sap þýðir stórt og tonle stöðuvatn eða fljót) er mikið stöðuvatn og samnefnt fljót í Kambódíu. Vatnið er langstærsta stöðuvatn í Suðaustur-Asíu og eitt fiskríkasta vatn í heimi. Vatnasvæðið hefur verið valið af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, sem fágætt lífríki.[1]

Landlýsing

[breyta | breyta frumkóða]
Útbreiðsla stöðuvatnsins á rigningar- og þurrkatíma. Dökkblái liturinn sýnir yfirborð á þurrkatímanum og ljósblái liturinn það svæði sem fer meira eða minna undir vatn á rigningartímanum.

Tonle Sap er sérstætt af tveimur meginorsökum: fljótið skiptir um rennslisátt tvisvar á ári og útbreiðsla stöðuvatnsins gjörbreytist allt eftir árstíma. Á þurrkatímanum frá nóvember og fram í maí rennur fljótið í Mekong-fljótið við Phnom Penh. Þegar rigningartíminn er kominn vel á veg í júní snýst fljótið við og stöðuvatnið margfaldast að flatarmáli. Hin mikla úrkoma sem monsúnvindarnir bera með sér og rignir yfir upptökusvæði Mekong-fljótsins allt frá Himalaja og suður eftir fjórfaldar vatnsmagnið í fljótinu miðað við þurrkatímann. Vegna þess að stór hluti Kambódíu er flatt og láglent og vatnsmagn Mekong eykst miklu hraðar en Tonle Sap stíflast það síðar nefnda nánast og fer að renna upp í móti. Þegar Mekong-fljótið rennur upp í Tonle Sap stækkar stöðuvatnið frá 2.600 – 3.000 km² að flatarmáli upp í um það bil 10.400 km² (ef með er talið allt votlendissvæðið sem skapast er það nánast 25.000 km²). Meðaldýpt vatnsins eykst frá 2–3 metrum í um 14 m. Vatnsmagnið nær hámarki í september og er þá nánast einn þriðji hluti alls ræktanlegs lands í Kambódíu undir vatni.[2]

Á þurrkatímanum, frá desember fram til apríl, kemur nær helmingur vatnsmagnsins sem flæðir um árósa Mekong-fljóts í Víetnam frá Tonle Sap.

Í lok október eða byrjun nóvember (við fullt tungl í mánuðinum Kadeuk í almanaki búddista) er haldin Vatnahátíðin, Bon Om Touk, helsta hátíð Kambódíumann. Þá snýst rennslið í fljótinu við en á ný og merkir það upphaf fiskivertíðarinnar.

Fljótandi þorp

Samskip stöðuvatns, votlendis, skóga og lækja skapa einstaklega ríkt lífríki í Tonle Sap og á öllu því svæði sem verður fyrir áhrifum af hinum árlegu sveiflum í vatnsmagni. Þar vaxa ýmsar trjáa og plöntutegundir sem hvergi annars staðar er að finna og eins margar tegundir fiska, fugla, skriðdýra og spendýra.

Á svæðinu má finna meira en 190 tegundir jurta og trjáa sem hafa aðlagast því að lifa ýmist á þurru landi, í votlendi eða á kafi í vatni.

Vísindamenn hafa greint meir en 400 fisktegundir, og eru um 70 þeirra veiddar til manneldis. Það veldur miklum áhyggjum að á síðustu árum hefur heildaraflinn minkað talsvert og hlutfall smáfiska aukist. Ýmsar tegundir stórra fiska hafa minnkað mikið.

Um hundrað fuglategundir lifa á og við vatnið, m.a. margar tegundir andfugla. Einnig má þar finna 23 tegundir af snákum og slöngum, 13 tegundir af skjaldbökum, krókódíla, apar, hlébarða og otra.[3]

Samgöngur á flóðtímanum

Frá örófi alda hefur fiskimennska og hrísgrjónarækt verið aðalundirstaða mannlífs í Kambódíu og fiskur og hrísgrjón eru enn undirstöðufæða landsmanna. Á Tonle Sap-svæðinu búa um 3,6 milljónir og fiskiaflinn þaðan er um 75% af heildarfiskiafla Kambódíu eða um 255.000 tonn árlega. Um 60% af prótínneyslu Kambódíumanna er úr fiski.

Tonle Sap er einnig mikilvæg samgönguleið, sérlega milli Siem Reap á norðurströndinni og höfuðborginnar Phnom Penh í suður.

Hið árlega flæði Mekong inn yfir Tonle Sap svæðið ber með sé gífurlega mikinn framburð næringarefna. Það er forsenda lífríkisins í vatninu en einnig forsenda hrísgrjónaræktar þar sem hún byggir á því að akrarnir liggi undir vatni hluta árs. Nokkrar stórar vatnsvirkjarnir hafa þegar verið byggðar í Mekong-fljótinu, bæði í Kína og Laos, og eru enn fleiri í undirbúningi. Þessar virkjunarframkvæmdir eru mikið áhyggjuefni allra sem hafa afkomu af Tonle Sap svæðinu og ekki síður líffræðinga enda munu þær eiga eftir að hafa mikil áhrif á vatnsmagn og flæði. Minnkandi fiskiafli er meðal annars rakinn til þessara breytinga á flæði.

Lágmynd í Angkor-musterinu

Mikilvægi Tonle Sap fyrir menningu og lífsviðhorf Kambódíumanna er auðvitað mikið. Þungamiðja hins forna Khmer-veldis var við Tonle Sap og má enn sjá minjar um það í Angkor-musterinu, sem er við norðurströnd vatnsins, og núverandi höfuðborg er þar sem Tonle Sap fljótið mætir Mekong-fljótinu.

Íbúar á svæðinu hafa aðlagast hinum árlegu sveiflum í vatnsmagni og byggingarstíll þeirra þróast í svo nefnd fljótandi þorp. Þau eru þó ekki fljótandi heldur eru allar byggingar byggðar á háum stólpum svo að þær standi upp úr vatninu þegar flæði er sem mest. Umferð fer þá öll fram á bátum og sundkunnátta er mikil.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Complete list of biosphere reserves in pdf, Publication Date: 03-11-2008, [1]
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. janúar 2011. Sótt 26. desember 2021.
  3. http://www.tsbr-ed.org
  • Water: A Shared Responsibility, Unesco, World Water Assessment Programme, útgefin af UN-HABITAT, 2006, ISBN 92-3-104006-5, 9789231040061
  • TSBR website Tonle Sap Biosphere Reserve Environmental Database.
  • Milton Osborne, The Mekong, Turbulent Past, Uncertain Future, Atlantic Monthly Press, 2000, ISBN 0-87113-806-9