Gustavo Petro
Gustavo Petro | |
---|---|
Forseti Kólumbíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 7. ágúst 2022 | |
Varaforseti | Francia Márquez |
Forveri | Iván Duque |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 19. apríl 1960 Ciénaga de Oro, Córdoba, Kólumbíu |
Stjórnmálaflokkur | Mannleg Kólumbía (frá 2011) |
Maki | Katia Burgos (skilin) Mary Luz Herrán (g. 1992; sk. 2003) Verónica Alcocer (g. 2003) |
Börn | 5 |
Háskóli | Universidad Externado de Colombia Escuela Superior de Administración Pública Pontificia Universidad Javeriana Universidad de Salamanca |
Undirskrift |
Gustavo Francisco Petro Urrego (f. 19. apríl 1960) er kólumbískur hagfræðingur, stjórnmálamaður, fyrrverandi skæruliði og núverandi forseti Kólumbíu. Hann var kjörinn forseti í forsetakosningum Kólumbíu þann 19. júní 2022 og tók við embættinu þann 7. ágúst. Petro er fyrsti vinstrisinnaði forseti í sögu kólumbíska lýðveldisins.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Gustavo Petro er fyrrverandi meðlimur í vinstrisinnuðu skæruliðahreyfingunni M-19, eða 19. apríl-hreyfingunni (sp. Movimiento 19 de abril), sem átti í uppreisn gegn ríkisstjórn Kólumbíu frá áttunda áratugnum fram á tíunda áratuginn vegna óánægju með meint kosningasvindl.[1]
Petro gekk í hreyfinguna þegar hann var sautján ára gamall og var handtekinn og dæmdur í tveggja ára fangelsi á níunda áratugnum fyrir vopnasölu. Hann komst í sviðsljósið þegar hann samdi um frið við kólumbísk stjórnvöld fyrir hönd M-19-hreyfingarinnar og tók síðan þátt í að semja drög að nýrri stjórnarskrá fyrir landið. Petro var kjörinn á kólumbíska þingið stuttu eftir aldamótin og stýrði þar þingnefnd sem hafði það hlutverk að rannsaka tengsl nokkurra íhaldssamra þingmanna við hryðjuverkahópa.[2]
Árið 2011 var Petro kjörinn borgarstjóri kólumbísku höfuðborgarinnar Bogotá.[2] Petro bauð sig fram til forseta Kólumbíu árið 2018 og lagði þá áherslu á að beita sér gegn félagslegum ójöfnuði, endurúthluta jarðeignum í Kólumbíu og einbeita sér að endurnýtanlegri orku í stað námuiðnaðar.[3] Petro tapaði í annarri umferð kosninganna fyrir íhaldsmanninum Iván Duque.[4]
Petro bauð sig aftur fram til forseta í næstu forsetakosningum, árið 2022. Kosningarnar einkenndust af vaxandi óánægju með aukinn ójöfnuð og verðbólgu í Kólumbíu og af óvinsældum fráfarandi forsetans Duque, sem mátti ekki bjóða sig fram til endurkjörs lögum samkvæmt.[1] Petro lenti í fyrsta sæti í fyrri umferð kosninganna með um fjörutíu prósent atkvæðanna.[5] Í seinni umferðinni þann 19. júní 2022 vann Petro svo sigur á móti viðskiptajöfrinum Rodolfo Hernández með rúmum helmingi atkvæða.[6]
Með sigri sínum í kosningunum varð Petro fyrsti vinstrimaðurinn til að ná kjöri til embættis forseta Kólumbíu frá lýðveldisstofnun.[7] Varaforsetaefni Petro, Francia Márquez, varð jafnframt fyrsta blökkukonan til að ná kjöri til embættis varaforseta.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Kosningar í Kólumbíu gætu orðið afdrifaríkar“. Fréttablaðið. 29. maí 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júní 2022. Sótt 20. júní 2022.
- ↑ 2,0 2,1 Kristján Sigurjónsson (28. maí 2022). „Vinstri forseti líklegur í Kólumbíu“. RÚV. Sótt 21. júní 2022.
- ↑ „Kosið öfga á milli í Kólumbíu“. mbl.is. 17. júní 2018. Sótt 21. júní 2022.
- ↑ Daníel Freyr Birkisson (18. júní 2018). „Iván Duque kjörinn forseti Kólumbíu“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júní 2022. Sótt 21. júní 2022.
- ↑ Ólafur Björn Sverrisson (30. maí 2022). „Líkur á vinstrisinnuðum forseta í Kólumbíu í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun“. Vísir. Sótt 20. júní 2022.
- ↑ „Fyrsti vinstrisinnaði forseti Kólumbíu“. mbl.is. 20. júní 2022. Sótt 20. júní 2022.
- ↑ Ólöf Rún Erlendsdóttir (19. júní 2022). „Gustavo Petro næsti forseti Kólumbíu“. RÚV. Sótt 20. júní 2022.
- ↑ Hólmfríður Gísladóttir (20. júní 2022). „Kólumbíumenn kjósa vinstrimann í forsetaembættið í fyrsta sinn“. Vísir. Sótt 21. júní 2022.
Fyrirrennari: Iván Duque |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |