Fara í innihald

Gustavo Petro

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gustavo Petro
Gustavo Petro árið 2022.
Forseti Kólumbíu
Núverandi
Tók við embætti
7. ágúst 2022
VaraforsetiFrancia Márquez
ForveriIván Duque
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. apríl 1960 (1960-04-19) (64 ára)
Ciénaga de Oro, Córdoba, Kólumbíu
StjórnmálaflokkurMannleg Kólumbía (frá 2011)
MakiKatia Burgos (skilin)
Mary Luz Herrán (g. 1992; sk. 2003)
Verónica Alcocer (g. 2003)
Börn5
HáskóliUniversidad Externado de Colombia
Escuela Superior de Administración Pública
Pontificia Universidad Javeriana
Universidad de Salamanca
Undirskrift

Gustavo Francisco Petro Urrego (f. 19. apríl 1960) er kólumbískur hagfræðingur, stjórnmálamaður, fyrrverandi skæruliði og núverandi forseti Kólumbíu. Hann var kjörinn forseti í forsetakosningum Kólumbíu þann 19. júní 2022 og tók við embættinu þann 7. ágúst. Petro er fyrsti vinstrisinnaði forseti í sögu kólumbíska lýðveldisins.

Gustavo Petro er fyrrverandi meðlimur í vinstrisinnuðu skæruliðahreyfingunni M-19, eða 19. apríl-hreyfingunni (sp. Movimiento 19 de abril), sem átti í uppreisn gegn ríkisstjórn Kólumbíu frá áttunda áratugnum fram á tíunda áratuginn vegna óánægju með meint kosningasvindl.[1]

Petro gekk í hreyfinguna þegar hann var sautján ára gamall og var handtekinn og dæmdur í tveggja ára fangelsi á níunda áratugnum fyrir vopnasölu. Hann komst í sviðsljósið þegar hann samdi um frið við kólumbísk stjórnvöld fyrir hönd M-19-hreyfingarinnar og tók síðan þátt í að semja drög að nýrri stjórnarskrá fyrir landið. Petro var kjörinn á kólumbíska þingið stuttu eftir aldamótin og stýrði þar þingnefnd sem hafði það hlutverk að rannsaka tengsl nokkurra íhaldssamra þingmanna við hryðjuverkahópa.[2]

Árið 2011 var Petro kjörinn borgarstjóri kólumbísku höfuðborgarinnar Bogotá.[2] Petro bauð sig fram til forseta Kólumbíu árið 2018 og lagði þá áherslu á að beita sér gegn félagslegum ójöfnuði, endurúthluta jarðeignum í Kólumbíu og einbeita sér að endurnýtanlegri orku í stað námuiðnaðar.[3] Petro tapaði í annarri umferð kosninganna fyrir íhaldsmanninum Iván Duque.[4]

Petro bauð sig aftur fram til forseta í næstu forsetakosningum, árið 2022. Kosningarnar einkenndust af vaxandi óánægju með aukinn ójöfnuð og verðbólgu í Kólumbíu og af óvinsældum fráfarandi forsetans Duque, sem mátti ekki bjóða sig fram til endurkjörs lögum samkvæmt.[1] Petro lenti í fyrsta sæti í fyrri umferð kosninganna með um fjörutíu prósent atkvæðanna.[5] Í seinni umferðinni þann 19. júní 2022 vann Petro svo sigur á móti viðskiptajöfrinum Rodolfo Hernández með rúmum helmingi atkvæða.[6]

Með sigri sínum í kosningunum varð Petro fyrsti vinstrimaðurinn til að ná kjöri til embættis forseta Kólumbíu frá lýðveldisstofnun.[7] Varaforsetaefni Petro, Francia Márquez, varð jafnframt fyrsta blökkukonan til að ná kjöri til embættis varaforseta.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Kosningar í Kólumbíu gætu orðið af­drifa­ríkar“. Fréttablaðið. 29. maí 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júní 2022. Sótt 20. júní 2022.
  2. 2,0 2,1 Kristján Sigurjónsson (28. maí 2022). „Vinstri forseti líklegur í Kólumbíu“. RÚV. Sótt 21. júní 2022.
  3. „Kosið öfga á milli í Kólumbíu“. mbl.is. 17. júní 2018. Sótt 21. júní 2022.
  4. Daníel Freyr Birkisson (18. júní 2018). „Iván Duque kjörinn forseti Kólumbíu“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. júní 2022. Sótt 21. júní 2022.
  5. Ólafur Björn Sverrisson (30. maí 2022). „Líkur á vinstri­sinnuðum for­­seta í Kólumbíu í fyrsta sinn frá lýð­veldis­­stofnun“. Vísir. Sótt 20. júní 2022.
  6. „Fyrsti vinstrisinnaði forseti Kólumbíu“. mbl.is. 20. júní 2022. Sótt 20. júní 2022.
  7. Ólöf Rún Erlendsdóttir (19. júní 2022). „Gustavo Petro næsti forseti Kólumbíu“. RÚV. Sótt 20. júní 2022.
  8. Hólmfríður Gísladóttir (20. júní 2022). „Kólumbíumenn kjósa vinstrimann í forsetaembættið í fyrsta sinn“. Vísir. Sótt 21. júní 2022.


Fyrirrennari:
Iván Duque
Forseti Kólumbíu
(7. ágúst 2022 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.