Þorvaldseyri
Þorvaldseyri (áður Svaðbæli) er bújörð undir Eyjafjöllum. Þar er mikil kornrækt og hefur bygg verið ræktað samfellt á Þorvaldseyri frá árinu 1960. Mikil öskufall varð á Þorvaldseyri í gosinu í Eyjafjallajökli.
Um og eftir 1890 þegar Páll Briem var sýslumaður í Rangárvallasýslu voru fangar stundum hafðir í haldi á Þorvaldseyri.[1]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Þorvaldseyri dregur nafn sitt af Þorvaldi Bjarnasyni (1833-1922) sem reisti bæinn á jörðinni Svaðbæli árið 1886. Uppbyggingin einkenndist af stórhug, þannig var heyhlaðan sú stærsta á landinu og sagði sagan að Þorvaldur hafi einsett sér að hún skyldi vera einni alin lengri og breiðari en skólahús Lærða skólans í Reykjavík.
Árið 1905 seldi Þorvaldur jörðina til Bjarna Jónssonar snikkara í skiptum fyrir stórhýsið Bjarnaborg, fyrsta fjölbýlishús Reykjavíkur sem þá var nýlega risið. Í kjölfarið réðst Þorvalur í togaraútgerð en tapaði þar mestöllum eignum sínum.
Fljótlega eftir að Bjarni Jónsson eignaðist Þorvaldseyri seldi hann það skáldinu Einari Benediktssyni sem gegndi um þær mundir embætti sýslumanns í héraðinu. Einar fluttist þó ekki að Þorvaldseyri heldur nýtti það sem útibú skrifstofu sinnar og gestahús. Ekki voru allir sáttir við að sýslumaðurinn nýtti ekki jafngóða bújörð og raun bar vitni og fór svo að Ólafur Pálsson frá Svínahaga á Rangárvöllum fékk hana keypta fyrir 9 þúsund krónur sem talið var geypiverð fyrir jörð.
Í búskapartíð Ólafs var mikil uppbygging á Þorvaldseyri. Reist var veglegt íbúðarhús úr steinsteypu árið 1918 og árið 1927 var komið upp vatnsaflsvirkjun fyrir bæinn. Ólafur og Sigríður kona hans bjuggu á Þorvaldseyri til 1949 þegar Eggert sonur þeirra tók við búskapnum. Undir hans stjórn hófust kornræktartilrauni á jörðinni þegar um 1950 og hafa þær haldið nafni bæjarins á lofti til þessa dags.[2]