Gérard Genette
Gérard Genette (7. júní 1930 – 11. maí 2018) var franskur bókmenntafræðingur sem er þekktastur fyrir skrif sín um frásagnafræði, grein sem hann átti þátt í að skapa ásamt fleira fræðafólki sem kennt hefur verið við póststrúktúralismann í hugvísindum á 7. áratug 20. aldar. Hann stofnaði tímaritið Poétique árið 1970 ásamt Tzvetan Todorov og Hélène Cixous. Skrif hans um frásagnafræði komu út sem þrjár ritgerðir, Figures I-III (1966-1972) og í bókinni Nouveau Discours du récit (1983). Árið 1979 setti hann fram hugmyndina um erkitextann (tengsl texta við bókmenntategundir, málsnið o.s.frv.) í Introduction à l'architexte og árið 1982 kom út bókin Palimpsestes: La Littérature au second degré þar sem hann þróaði áfram hugtakið textatengsl sem Julia Kristeva og Roland Barthes, meðal annarra, höfðu áður unnið með.