Fara í innihald

Glímufélagið Ármann

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Glímufélagið Ármann er reykvískt íþróttafélag, sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1888. Það er því í hópi elstu félagasamtaka á Íslandi.

Ármann er fjölgreinaíþróttafélag, en var á sínum tíma stofnað um glímuiðkun. Er sérstaklega tekið fram í lögum félagsins að því beri að standa vörð um íslensku glímuna. Í gegnum tíðina hafa Ármenningar lagt stund á velflestar íþróttagreinar, en í seinni tíð hefur áherslan einkum verið lögð á aðrar greinar en boltaíþróttir.

Félagssvæði Ármanns var í Túnunum um áratuga skeið, en flutti síðar í Laugardalinn ásamt Knattspyrnufélaginu Þrótti. Starfa félögin tvö náið saman og skipta á milli sín íþróttagreinum.

Skjaldarglíma Ármanns er eitthvert elsta og sögufrægasta íþróttamót landsins. Í ársbyrjun 1908 var verðlaunagripur, Ármannsskjöldurinn, gefinn til kappglímunnar, og skyldi hann veittur til heiðurs mesta glímumanni Reykjavíkur. Í umtali fór glímumótið að draga nafn af verðlaunagripnum og kallast Skjaldarglíma Ármanns.

Íþróttadeildir Ármanns eru: almenningsíþróttadeild, fimleikadeild, frjálsíþróttadeild, glímudeild, júdódeild, körfuknattleiksdeild, lyftingadeild, sunddeild, skíðadeild og taekwondodeild.

Af greinum sem félagið hefur áður keppt í mætti nefna knattspyrnu, handknattleik, kappróður og sundknattleik.

  Þessi íþróttagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.