Nútría
Nútría | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Nútría.
| ||||||||||||||
Ástand stofns | ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
|
Nútría er stórt nagdýr, skylt bjór, og hefur stundum verið kallað fenjabjór á íslensku. Hún er eini meðlimur ættarinnar Myocastoridae, og lifir að töluverðu leyti í vatni. Nútríur eru upprunar í hitabeltislöndum Suður-Ameríku en hafa síðan verið fluttar til flestra heimsálfa, einkum til loðdýraræktar, og var ræktun þeirra um eitt skeið reynd á Íslandi.
Nútríur eru með stærri nagdýrum. Fullorðin dýr eru 5-9 kíló að þyngd og allt að 60 cm löng, auk þess sem halinn er 30-45 cm. Þeim er stundum ruglað saman við bísamrottur en þær eru minni og halinn flatari. Feldurinn er dökkbrúnn, ytri hárin gróf en þau innri mjúk. Spenar kvendýra eru hátt á síðunum en ekki neðan á kviðnum og geta ungarnir því sogið þótt móðirin sé í vatni. Framtennur nútríunnar eru áberandi rauðar.
Þótt feldur þeirra sé verðmætur eru þær taldar plága þar sem þær lifa villtar. Þær lifa einkum á grasi og jurtum sem vaxa í vatni og við vatnsbakka en þykja nýta mat sinn illa því þær naga aðeins stönglana neðst og geta því valdið gróðureyðingu, auk þess sem þær grafa sundur ár- og vatnsbakka.
Nytjar
[breyta | breyta frumkóða]Á seinni hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar var töluvert reynt að rækta nútríur á loðdýrabúum og voru þær þá fluttar til margra landa. Ræktunin þótti þó ekki sérlega ábatasöm og þegar eftirspurn eftir loðfeldum minnkaði lögðu mörg bú upp laupana og var nútríunum þá jafnvel sleppt lausum. Þær hafa því víða orðið plága, lagt árbakka í auðn og valdið röskun á lífkerfinu. Víða í Bandaríkjunum hefur því verið lagt fé til höfuðs þeim. Í Austur-Anglíu í Bretlandi var þeim útrýmt með átaki árið 1989.
Kjöt nútríunnar er vel ætt, fitulítið og kólesterólsnautt, og hefur því oft verið reynt að markaðssetja það til manneldis en það hefur ekki tekist, á Vesturlöndum að minnsta kosti. Rauðar framtennur nútríunnar hafa verið notaðar í skartgripi.
Nútríur á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Nútríurækt var reynd á Íslandi á 4. áratug 20. aldar. Í maí 1932 voru flutt til landsins sex dýr frá Þýskalandi og fóru fimm þeirra að tveimur bæjum í Grímsnesi en eitt varð eftir í Reykjavík. Nokkru síðar voru einnig flutt inn dýr frá Noregi. Ræktunartilraunir héldu áfram á Miðengi í Grímsnesi í nokkur ár en aldrei tókst þó að koma loðdýrabúi á rekspöl. Eitthvað var um að dýr slyppu en þau lifðu ekki af í íslenskri náttúru, enda þola dýrin kalda vetur illa og þar sem stofnar hafa komist upp á Norðurlöndum hrynja þeir oft niður á hörðum vetrum. Mun nútríuræktinni hérlendis hafa lokið um eða fyrir 1940.
Árið 1985 lagði Búnaðarsamband Austurlands fram hugmyndir um að flytja inn nútríur og hefja loðdýrarækt hérlendis en ekkert varð þó úr framkvæmd þeirra.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Coypu“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. júlí 2011.
- „Nýjustu landnemarnir. Nútríur. Náttúrufræðingurinn, 11.-12. tölublað 1933“.
- „Skartgripatennur og kanínupelsar. NT, 22. febrúar 1985“.