Neil Gaiman
Neil Richard MacKinnon Gaiman (f. 10. nóvember 1960) er margverðlaunaður enskur rithöfundur, myndasöguhöfundur og handritshöfundur. Þekktustu verk hans er myndasöguröðin The Sandman og skáldsögurnar Stardust, American Gods, Coraline og The Graveyard Book. Sögur hans gerast yfirleitt á mörkum fantasíu og veruleika. Hann hóf feril sinn sem blaðamaður en kynntist myndasöguhöfundinum Alan Moore á 9. áratugnum og hóf að skrifa sögur fyrir myndasögur, þar á meðal fyrir tímaritið 2000 AD. Árið 1987 var hann ráðinn af DC Comics og hóf þar að skrifa nýjar sögur fyrir gamla DC-persónu, Óla lokbrá, eða The Sandman. Sögurnar um The Sandman komu út frá 1989 til 1996 og nutu gríðarlegra vinsælda. Á sama tíma skrifaði hann sögur fyrir fjölda annarra myndasagna. Fyrsta skáldsagan hans, Good Omens, var skrifuð í samstarfi við Terry Pratchett og kom út 1990. Árið 1996 skrifaði hann handrit fyrir BBC-sjónvarpsþættina Neverwhere og fyrsta skáldsagan sem hann samdi einn var bókarútgáfa sömu sögu. Árið 2001 kom American Gods út. Hún vann til fjölda verðlauna. Sjónvarpsþættir eftir sögunni voru framleiddir árið 2015.