Steingrímsfjörður
Steingrímsfjörður gengur inn úr Húnaflóa til norðvesturs og er lengsti fjörður á Ströndum. Við fjörðinn standa tvö kauptún, Hólmavík og Drangsnes. Talsverður búskapur er stundaður í Steingrímsfirði og þar er undirlendi nokkuð mikið og skjólgott í flestum áttum. Kollafjörður er næsti fjörður sunnan við Steingrímsförð og Bjarnarfjörður næsti fjörður norðan við.
Steingrímsfjörður dregur nafn sitt af landnámsmanninum Steingrími trölla sem nam þar land og bjó í Tröllatungu. Hann er heygður uppi á Staðarfjalli í Steingrímshaugi, samkvæmt þjóðsögunni.
Landlýsing
[breyta | breyta frumkóða]Selströnd og Selárdalur
[breyta | breyta frumkóða]Steingrímsfjörður skiptist milli tveggja sveitarfélaga, Strandabyggðar og Kaldrananeshrepps. Mörkin milli þeirra eru dregin við Selá sem rennur úr Selárdal í botni fjarðarins en norðurströnd fjarðarins þar austan við heitir Selströnd þar sem þorpið Drangsnes stendur í Hveravík. Ágætan fisk er að hafa úr Selá. Í Selárdal er búskapur á einum bæ; Geirmundarstöðum.
Staðardalur
[breyta | breyta frumkóða]Staðardalur gengur einnig úr botni Steingrímsfjarðar en um hann liggur Djúpvegur yfir Steingrímsfjarðarheiði (í 439 m hæð) niður í Ísafjarðardjúp. Í Staðardal rennur Staðará, ágæt veiðiá, niður í Steingrímsfjörð. Í Staðardal er eingöngu búskapur á Stað, sem er fornt stórbýli og kirkjustaður. Staðarkirkja var byggð árið 1855. Nokkur sumarhús eru í Staðardal.
Hólmavík
[breyta | breyta frumkóða]Nokkuð út með firðinum sunnanverðum er skálarlaga vík þar sem þorpið Hólmavík stendur í landi jarðarinnar Kálfaness.
Víðidalur
[breyta | breyta frumkóða]Rétt sunnan við Hólmavík er Víðidalsá sem er enn ein veiðiáin í Steingrímsfirði. Í henni er laxveiði. Víðidalsá rennur úr Víðidal og sameinast Húsadalsá um það bil kílómetra frá sjó. Nokkru framar rann Þverá áður úr Þiðriksvallavatni í Húsadalsá, en nú er vatnið miðlunarlón fyrir Þverárvirkjun. Þiðriksvallavatn er nokkuð stórt og er í Þiðriksvalladal.
Tungusveit
[breyta | breyta frumkóða]Suðurströnd Steingrímsfjarðar hefur verið kölluð Tungusveit og austasti hluti hennar Gálmaströnd. Tungusveit dregur nafn af stórbýlinu Tröllatungu sem samkvæmt sögunni var landnámsjörð Steingríms trölla. Frá Tröllatungu er gamall vegur án nokkurrar þjónustu yfir Tröllatunguheiði, í 420 metra hæð yfir sjávarmáli, yfir í Geiradal í Reykhólasveit. Þröskuldar eru malbikaðir að Króksfirði í Reykhólasveit.
Grímsey
[breyta | breyta frumkóða]Í mynni Steingrímsfjarðar er eyjan Grímsey sem er vinsæll útivistarstaður. Þar er stór lundabyggð.
Fuglalíf í Steingrímsfirði
[breyta | breyta frumkóða]Um 44 tegundir fugla eru árvissir varpfuglar og 4 tegundir eru óvissir varpfuglar. Haförn verpi áður á svæðinu. Algengustu varpfuglar eru sjófuglar og eru þeir um 70 % af heildarfjölda fugla á svæðinu. Fýll, æðarfugl, kría og lundi eru algengustu sjófuglarnir en af landfuglum eru heiðlóa og þúfutittlingur með stærstu stofnstærð en útbreiddasti varpfuglinn er snjótittlingur. Heiðlóa, rjúpa, sendlingur, þúfutittlingur, hrafn og snjótittlingur, álft, grágæs, fálki, hrossagaukur, spói, stelkur, kjói, steindepill og skógarþröstur og lóuþræll eru útbreidd. Aðrir algengir fuglar eru urtönd, stokkönd, toppönd og straumönd, tjaldur, hettumáfur, steindepill, skógarþröstur og hrafn. Æðarfugl, tjaldur og sandlóa verpa aðeins við ströndina. Teista var áður dreifð um ströndina en varp hennar hefur dregist saman. Grágæs verpir aðallega við ströndina. Sílamáfur, silfurmáfur, rita og álka verpa hvergi nema í Grímsey. Svartbakur verpir aðallega í Grímsey. Hvítmáfur verpir í Grímsey og Kaldbakshorni. Strjálir varpfuglar eru lómur, himbrimi, toppskarfur, rauðhöfðaönd, duggönd, straumönd, hávella, gulönd, smyrill, fálki, jaðrakan, óðinshani, kjói, teista, maríuerla og músarrindill.
Umferðarfarfuglar eru rauðbrystingur og tildra sem setja svip á fjörur á vori. Heiðagæsir sjást á láglendi á vorin en hálendi á haustin. Sjaldgæfir fuglar og flækingar eru grafönd, stormmáfur og snæugla. Eftirtaldir fuglar hafa aðeins sést einu sinni: flórgoði, súla, gráhegri, snjógæs, blesgæs, helsingi, margæs, skutulönd, skúfönd, hvinönd, æðarkóngur, hrafnsönd, korpönd, húsönd, vepja, sanderla, skógarsnípa, ísmáfur, föruspí, brandugla, svartþröstur, grákráka og stari.[1]
Jarðir í Steingrímsfirði *
[breyta | breyta frumkóða]
|
|
|
* Í jarðalistann vantar jarðir frá Hveravík að Bjarnarnesi.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Varpfuglar í Steingrímsfirði og nágrenni- Könnun 1987-1994, Náttúrufræðistofnun Íslands, 1995, fjölrit nr. 28