Fara í innihald

Velleius Paterculus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Historia romana, 1600

Gaius[1] Velleius Paterculus (um 19 f.Kr. – um 31 e.Kr.) var rómverskur sagnaritari.

Velleius samdi ágrip af sögu Rómaveldis í tveimur bókum og tileinkaði Marcusi Viniciusi. Ritið fer yfir sögu (og forsögu) Rómverja frá falli Tróju til dauða Liviu árið 29 e.Kr. Í fyrstu bók er fjallað um tímann fram að falli Karþagó árið 146 f.Kr. en hluta vantar úr fyrstu bók, þar á meðal upphaf hennar. Í seinni bókinni, einkum þar sem segir frá dauða Caesars árið 44 f.Kr. og fram að dauða Augustusar árið 14 e.Kr., er umfjöllun Velleiusar miklu ýtarlegri.

Velleius fjallar í stuttu máli á grískar og latneskar bókmenntir en minnist þó hvergi á Plautus, Horatius eða Propertius. Hann þykir almennt áreiðanlegur en virðist þó ekki hafa haft djúpa sagnfræðilega skarpskyggni. Helstu heimildir hans voru Cato eldri, Quintus Hortensius, Pompeius Trogus, Cornelius Nepos og Livius. Stíll Velleiusar ber keim af mælskulist.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. eða Marcus
  Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.