Neuschwanstein
Neuschwanstein er kastali mikill í þýsku Ölpunum í sambandsríkinu Bæjaraland. Hann er einn fegursti og vinsælasti kastali Þýskalands. Hann er oft kallaður Ævintýrahöllin (Märchenschloss).
Saga Neuschwanstein
[breyta | breyta frumkóða]Á staðnum þar sem Neuschwanstein stendur nú, voru áður rústir lítils virkis. Hinn ungi prins Lúðvík var að hluta alinn upp í nágrenninu, í kastalanum Hohenschwangau, sem einnig kallaðist Schwanstein (Svanasteinn). Þegar Lúðvík varð konungur Bæjaralands 1864 og varð Lúðvík II, tók hann sér fyrir hendur að rífa rústir virkisins til að reisa nýjan og veglegan kastala fyrir sig. Framkvæmdir hófust 1869 og þjónaði kastalavirkið Wartburg í Þýringalandi sem fyrirmynd. Konungur hafði mikil áhrif á teikningarnar og má segja að útlit kastalans, bæði utan sem innan, hafi meira eða minna verið hans verk. Því töfðust framkvæmdir, þar sem konungur lét oft gera breytingar á teikningunum. 1886 gat Lúðvík loks flutt inn, þrátt fyrir að kastalinn væri langt frá því að vera tilbúinn. En honum lá á, því hann var veikur og lést hann á sama ári. Þá hafði Lúðvík aðeins verið í kastalanum í fáeina mánuði. Það hefur því aldrei verið búið í kastalanum nema í nokkra mánuði. Hálfu ári seinna var kastalinn í fyrsta sinn opnaður fyrir almenning. Aðgangseyrir gestanna var notaður til að greiða byggingarskuldir sem orðnar voru mjög háar og til að klára framkvæmdir við kastalann. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari fluttu nasistar mikið af gulli í kastalann, til að komast hjá því að bandamenn kæmust í það. Gullið var svo flutt í burtu og ráðgerðu nasistar að sprengja kastalann. En yfirmaður verksins framfylgdi ekki skipunina þegar til kom og því stendur hann enn í dag. Kastalinn er opinn almenningi og er einn vinsælasti ferðamannastaður Þýskalands. Neuschwanstein lenti í 8. sæti yfir val á nútíma heimsundrin 7. Sótt hefur verið um að setja hann á heimsminjaskrá UNESCO.
Höllin
[breyta | breyta frumkóða]Neuschwanstein stendur á háum klettahrygg við rætur Alpafjalla. Stærsti hluti hans er höllin, en einnig er þar að finna virki, varðturnar, inngangshlið og varnarmúrar. Alls er samstæðan 150 metra löng. Upphaflega var ráðgert að í höllinni yrðu 200 herbergi og salir. En sökum fjárskorts og dauða Lúðvíks konungs urðu þeir miklu færri. Í höllinni eru þrjár aðalhæðir. Neðst eru vistarverur fyrir þjónustuliðið, eldhús og geymslur. Á miðhæðinni eru móttökusalir og veislusalir. Efst eru vistarverur konungs, en þar fyrir ofan (hálfgerð fjórða hæð) er krúnusalurinn (Thronsaal). Stærsti salurinn er hins vegar söngvasalurinn (Sängersaal), sem er hátíðarsalur. Hann er skreyttur með myndefni úr óperunni Lohengrin og Parsival-sögunni eftir Richard Wagner, en Lúðvík konungur dáðist að tónlist hans. Ekki fóru þó neinir tónleikar fram í salnum meðan konungur lifði. Fyrstu tónleikar þar fóru ekki fram fyrr en 1933, á 50. dánarári Richards Wagners. Vistarverur konungs eru einnig gríðarlega skreyttar, oftar en ekki með myndefni úr tónlist Wagners.
Gallerí
[breyta | breyta frumkóða]-
Söngvasalurinn er hátíðarsalur kastalans
-
Krúnusalurinn
-
Einkastofa konungs
-
Svefnherbergi konungs
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Neuschwanstein“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.