Paragvæska karlalandsliðið í knattspyrnu
Íþróttasamband | (Spænska: Asociación Paraguaya de Fútbol) (Knattspyrnusamband Paragvæ) | ||
---|---|---|---|
Álfusamband | CONMEBOL | ||
Þjálfari | Guillermo Barros Schelotto[ | ||
Fyrirliði | Gustavo Gómez | ||
Leikvangur | Estadio Defensores del Chaco | ||
FIFA sæti Hæst Lægst | 48 (6. apríl 2023) 8 (mars 2001) 103 (maí 1995) | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
1-5 gegn Argentínu, (11. maí, 1919) | |||
Stærsti sigur | |||
7-0 á móti Bólivíu (30. apríl 1949) & 7-0 á móti Hong Kong (17. nóvember 2010) | |||
Mesta tap | |||
0-8 gegn Argentínu (20. október 1926). |
Paragvæska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Paragvæ í knattspyrnu og er stjórnað af knattspyrnusambandi lands síns.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Knattspyrnusamband Paragvæ var stofnað árið 1906, skömmu eftir að íþróttin hóf innreið sína í landinu, en það var William Paats íþróttakennari sem fæddur var í Hollandi sem kynnti greinina. Úrvalslið paragvæskra leikmanna lék óformlegan landsleik gegn argentínsku félagsliði árið 1910 og lauk honum með markalausu jafntefli.
Eftir að knattspyrnusambandið þekktist boð um að taka þátt í Copa America árið 1921 var ákveðið að koma á laggirnar formlegu landsliði sem hóf að leika æfingarleiki á árinu 1919. Við sama tilefni var landsliðsbúningurinn ákveðinn, rauð og hvítröndótt treyja sem haldist hefur til þessa dags. Þegar í úrslitakeppnina var komið kom Paragvæ öllum á óvart með því að sigra þrefalda meistara Úrúgvæ í fyrsta leik, þótt liðið mætti að lokum sætta sig við fjórða og neðsta sætið í keppninni.
Fyrstu heimsmeistarakeppnirnar
[breyta | breyta frumkóða]HM í knattspyrnu var í fyrsta sinn haldin í Úrúgvæ 1930. Lið frá Suður-Ameríku voru í meirihluta þátttakenda og var Paragvæ í riðli með Bandaríkjamönnum og Belgum, sem taldir voru sigurstranglegastir. Mörgum að óvörum unnu Bandaríkin báða sína leiki 3:0 og léku Paragvæ og Belgía því aðeins um heiðurinn í lokaleiknum sem suður-ameríska liðið vann 1:0. Langur tími átti eftir að líða uns Paragvæ keppti aftur í úrslitum heimsmeistaramóts.
Þegar mótið var aftur haldið í Suður-Ameríku, í Brasilíu 1950 var Paragvæ aftur meðal keppenda. Liðið þótti sterkt og hafði hafnað í öðru sæti á Copa America árið áður. Paragvæ mátti sætta sig við mjög þungan riðil með ríkjandi heimsmeisturum Ítala og Ólympíumeisturum Svía. Fjórða liðið, Indverjar drógu sig úr keppni. Paragvæ gerði 2:2 jafntefli við Svía eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Áður höfðu Svíar unnið Ítali, sem voru með úrslitum þessum fallnir úr leik en Paragvæ hefði komist áfram með tveggja marka sigri á Ítölum í lokaleiknum. Það tókst hins vegar ekki og unnu Evrópumennirnir með tveimur mörkum gegn engu.
Meistarar í Suður-Ameríku
[breyta | breyta frumkóða]Suður-Ameríkukeppnin 1953 fór fram í Perú. Keppt var í einum sjö liða tiðli þar sem Paragvæ vann þrjá leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði einum. Sigur í lokaleiknum gegn Brasilíu skilaði liðunum jöfnum að stigum og þurftu þau að mætast í hreinum úrslitaleik nokkrum dögum síðar. Paragvæ skoraði þrívegis í fyrri hálfleik og vann að lokum 3:2 og sigraði í Copa America í fyrsta sinn.
Paragvæ og Brasilía börðust um laust sæti á HM 1954 þar sem Brasilía hafði betur en fyrir HM í Svíþjóð 1958 skaut lið Paragvæ tvöföldum heimsmeisturum Úrúgvæ ref fyrir rass.
Í Svíþjóð lenti Paragvæ í riðli með þremur Evrópuþjóðum: Frökkum, Skotum og Júgóslövum. Boðið var upp á mikla markasúpu. Á upphafsdegi mótsins mættust Frakkland og Parragvæ í Norrköping. Paragvæ komst yfir og jafnaði í bæði 2:2 og 3:3, en í kjölfarið komu fjögur frönsk mörk og lauk leiknum 7:3, þar sem markahrókurinn Just Fontaine gerði þrennu.
Paragvæ lét skellinn á móti Frakklandi ekki slá sig út af laginu og vann góðan 3:2 sigur á Skotum í næsta leik, sem gerði HM-vonir Skota að engu. Skoska liðið hafði því ekki að neinu að keppa í lokaleiknum gegn Frökkum sem unnu og nældu sér þannig í toppsætið. Paragvæ og Júgóslavía bitust um annað sætið og dugði Austur-Evrópubúunum jafntefli. Júgóslavarar náðu þrisvar forystunni í Eskilstuna en Paragvæ jafnaði jafnharðan. Lokatölur 3:3 en Paragvæ sat eftir þrátt fyrir hetjulega baráttu og níu skoruð mörk.
Niðursveifla
[breyta | breyta frumkóða]Frammistaðan á HM í Svíþjóð varð til þess að vekja athygli evrópskra liða á bestu leikmönnum Paragvæ og varð það til þess að veikja landsliðið á næstu árum. Paragvæ missti naumlega af sæti á HM 1962 eftir naumt tap í tveggja leikja einvígi gegn Mexíkó. Argentína og Brasilía reyndust ofjarlar Paragvæ í forkeppnunum fyrir HM 1966 og 1970.
Uppskeran í Copa America var sömuleiðis rýr á þessu tímabili, ef frá er talin keppnin 1963 í Bólivíu. Þar hafnaði Paragvæ í öðru sæti á eftir heimamönnum og misstu titilinn frá sér í lokaumferðinni með því að gera jafntefli við Argentínu á sama tíma og Bólivía vann ótrúlegan 5:4 sigur á brasilísku heimsmeisturunum.
Enn voru það Argentína og Brasilía sem stóðu í vegi fyrir því að Paragvæ kæmist á 1974 og 1978. Í Copa America var nýtt keppnisfyrirkomulag tekið upp árið 1975 þar sem horfið var frá því að halda mótið í einu landi heldur var leikið heima og heiman yfir langt tímabil. Uppskera Paragvæ varð rýr í fyrsta sinn sem leikið var með þessu fyrirkomulagi en annað átti eftir að verða raunin fjórum árum síðar.
Seinni álfumeistaratitillinn
[breyta | breyta frumkóða]Paragvæ komst í hann krappann í riðlakeppni Copa America 1979 þar sem liðið mætti Ekvador og Úrúgvæ. Jöfnunarmark frá Eugenio Morel í Montevideo kom paragvæska liðinu í undanúrslitin þar sem tveggja leikja einvígi gegn Brasilíu beið. Paragvæ vann heimaleikinn 2:1 og jafnaði svo í tvígang í seinni leiknum í Brasilíu og tryggði sér sæti gegn Síle í úrslitakeppni.
Paragvæ hafði mikla yfirburði í heimaleiknum og sigraði 3:0 í Asunción. Mikill hiti var í seinni leiknum í Síle og misstu bæði lið mann af velli eftir einungis sautján mínútna leik. Mark heimamanna snemma leiks skildi að lokum milli liðanna. Þar sem ekki var horft til markamunar þurfti því oddaleik sem fram fór í Argentínu viku síðar. Reglur keppninnar sögðu að ekki yrði gripið til vítaspyrnukeppni ef jafnt yrði í oddaleiknum heldur teldist Paragvæ þá sigurvegari út á fleiri mörk skoruð. Síle þurfti því að sækja til sigurs en Paragvæ gat látið nægja að verja fenginn hlut. Eftir framlengdan leik tókst hvorugu liðinu að skora marg og Paragvæ varð Suður-Ameríkumeistari í annað skiptið í sögunni.
HM í Mexíkó
[breyta | breyta frumkóða]Paragvæ tókst ekki að fylgja eftir frammistöðunni á Copa America í forkeppni HM á Spáni 1982 og hafnaði í botnsæti síns forriðils. Sem ríkjandi meistarar fengu Paragvæjar sjálfkrafa sæti í undanúrslitum Copa America 1983. Mótherjarnir þar voru Brasilíumenn. Liðin gerðu 1:1 jafntefli í Paragvæ og 0:0 í Brasilíu. Þá var gripið til þess ráðs að varpa hlutkesti um sætið í úrslitaleiknum þar sem brasilíska liðið hafði heppnina með sér.
Í undankeppni HM 1986 veitti Paragvæ rómuðu liði Brasilíu harða samkeppni og gerði jafntefli í báðum viðureignum. Paragvæ fór í úrslitakeppni þar sem það sigraði bæði Kólumbíu og Síle til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í 28 ár.
Riðill Paragvæ í úrslitunum var almennt talinn sá veikasti. Flestir bjuggust við að Írakar yrðu fallbyssufóður en lið þeirra veitti andstæðingum sínum harða keppni og tapaði öllum leikjum með minnsta mun. Paragvæ hafði betur 1:0 í fyrstu umferðinni og mátti þakka fyrir sigurinn. Írakar voru afar ósáttir við dómara leiksins en þeir fengu horn á lokamínútu fyrri hálfleiks, leikmaður þeirra skallaði í netið beint úr hornspyrnunni en dómarinn hafði flautað af á meðan boltinn var í loftinu.
Næsti leikur var gegn heimamönnum á Azteca-vellinum í Mexíkóborg. Mexíkóska liðið skoraði á upphafsmínútunum og freistaði þess síðan að halda fengnum hlut. Þegar fimm mínútur voru eftir jafnaði Julio César Romero fyrir Paragvæ sem var þar með nálega öruggt um sæti í 16-liða úrslitum. Belgar voru mótherjarnir í lokaleik riðilsins. Evrópubúarnir komust tvisvar yfir en Pargvæ jafnaði jafnharðan og endaði í öðru sæti riðilsis á eftir Mexíkó.
Í 16-liða úrslitunum biðu Paragvæa leikmenn Englands. Enska liðið reyndist mun sterkara og vann 3:0 með tveimur mörkum frá Gary Lineker.
Í biðstöðu
[breyta | breyta frumkóða]Paragvæ mistókst að komast á HM 1990 og 1984, þótt ekki mætti miklu muna. Uppskeran í Copa America var sömuleiðis rýr undir lok níunda áratugarins og á þeim tíunda. Þó komst liðið í fjögura liða úrslitariðil í mótinu árið 1989 en endaði á að reka lestina.
Á sama tíma var þó gullaldarkynslóð að vaxa upp í paragvæska boltanum. Ungmennalið Paragvæ komst í úrslitakeppni ÓL í Barcelona 1992. Það komst liðið í fjórðungsúrslit en tapaði þar í fjórðungsúrslitum gegn Gana. Leikmenn úr Ólympíuliðinu áttu eftir að mynda hryggjarstykkið í öflugu paragvæsku landsliði næstu árin.
Gullöldin rennur upp
[breyta | breyta frumkóða]Sætið á HM 1998 var tryggt með glæsibrag þegar Paragvæ hafnaði í öðru sæti, fast á hæla Argentínumanna í forkeppninni. Á mótinu í Frakklandi lenti Paragvæ í riðli með Spánverjum, Búlgörum og Nígeríumönnum og voru möguleikarnir taldir góðir þar sem liðið var næstefst í riðlinum á styrkleikalista FIFA á eftir spænska liðinu.
Paragvæ og Búlgaría gerðu markalaust jafntefli í bragðdaufum upphafsleik og sömu úrslit urðu í næsta leik gegn Spáni. Úrslitin þýddu að Nígeríumenn máttu tapa fyrir Paragvæ í lokaleik sínum og enda samt í toppsæti riðilsins. Afríkumennirnir hvíldu ýmsa lykilmenn og Paragvæ fór með sigur af hólmi, 3:1 og var komið áfram í útsláttarkeppnina. Þar tók við erfitt verkefni gegn heimamönnum og heimsmeistaraefnum Frakka. Paragvæ pakkaði í vörn og freistaði þess að knýja leikinn í vítaspyrnukeppni en skömmu fyrir lok framlengingar skoraði Laurent Blanc svokallað gullmark sem réð úrslitum.
Eftir frammistöðuna í Frakklandi voru Paragvæar bjartsýnir fyrir Copa America 1999, þá fyrstu þar sem landið gengndi hlutverki gestgjafa. Paragvæ fór taplaust í gegnum riðlakeppnina en mætti Úrúgvæ í fjórðungsúrslitum. Gestirnir jöfnuðu í lok venjulegs leiktíma og unnu að lokum sigur í vítakeppni svo draumurinn um sigur á heimavelli fór fyrir lítið.
Fyrir HM 2002 hafði Paragvæ aldrei tekist að komast í tvær úrslitakeppnir í röð. Það breyttist að þessu sinni og Paragvæ komst áfram þrátt fyrir að hljóta aðeins eitt stig úr þremur síðustu leikjum sínum. Meðan á undankeppninni stóð náði liðið sínu hæsta sæti á styrkleikalista FIFA fyrr og síðar, áttunda sætinu í mars 2001.
Fyrsti leikurinn í Suður-Kóreu olli vonbrigðum þar sem Suður-Afríkumenn náðu jöfnunarmarki í uppbótartíma. Eftir 3:1 tap gegn Spánverjum í næsta leik virtist staðan orðin býsna svört og ljóst að allt þyrfti að ganga upp í lokaumferðinni til að Paragvæ kæmist áfram á kostnað Suður-Afríku. Að lokum fór þó svo að suður-afríska liðið tapaði fyrir Spáni. Paragvæ lenti 0:1 undir á móti Slóveníu en skoraði þrjú mörk á tuttugu mínútna kafla og komst áfram á kostnað Afríkumannanna með sama markamun en einu marki meira skorað.
Ævintýri paragvæska liðsins virtist ætla að halda áftam í 16-liða úrslitunum þar sem það átti í fullu tré við Þjóðverja en tveimur mínútum fyrir leikslok skoraði Oliver Neuville sigurmarkið og Þjóðverjarnir fóru alla leið í úrslit.
Fremsta röð og fjórðungsúrslit
[breyta | breyta frumkóða]Paragvæ skaut Brasilíu aftur fyrir sig í riðlakeppni Copa America 2004 en féll annað skiptið í röð úr keppni á móti Úrúgvæ í næstu umferð. Liðið nældi sér í farseðil á HM 2006 í Þýskalandi en mætti þó ekki eins sterkt til leiks og í tvö fyrri skiptin. Sjálfsmark í byrjun leiks kostaði Paragvæ 1:0 tap gegn Englendingum í upphafsleik riðilsins og draumurinn slokknaði endanlega þegar Freddie Ljungberg tryggði Svíum 1:0 sigur með marki í blálokin í næstu viðureign. Sigur á Trinídad og Tóbagó í lokaleiknum var lítil sárabót.
Suður-Ameríkukeppnin 2007 sem fram fór í Venesúela byrjaði ágætlega þar sem Paragvæ skellti Kólumbíu 5:0 í riðlakeppninni, en í útsláttarkeppninni fór allt í skrúfuna og liðið tapaði fyrir Mexíkó, 6:0 sem eru einhver verstu úrslit Paragvæ í seinni tíð.
Eftir vonbrigðin í Venesúela tók betra við og á HM 2010 náði Paragvæ sínum besta árangri til þessa dag. Liðið endaði fast á hæla Brasilíu og Síle í forkeppninni eftir að hafa unnið m.a. bæði Brasilíu og Argentínu. Riðillinn í Suður-Afríku var talinn viðráðanlegur. Paragvæ og heimsmeistarar Ítala gerðu 1:1 jafntefli í fyrsta leik og með 2:0 sigri á Slóvökum í annarri umferð var Paragvæ komið langleiðina áfram. Við tók bragðdauft markalaust jafntefli gegn liði Nýja-Sjálands sem dugði óvænt til toppsætisins í riðlinum þar sem Slóvakar skelltu Ítölum.
Leikur Paragvæ og Japans einkenndist sömuleiðis af mikilli varfærni. Eftir 0:0 jafntefli þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem Paragvæ skoraði úr öllum sínum spyrnum og komst áfram í næstu umferð. Spánn og Paragvæ mættust í fjórðungsúrslitunum. Paragvæ misnotaði vítaspyrnu í leiknum og Spánn sömuleiðis, þrátt fyrir að hún væri tvítekin. Undir lokin skoraði David Villa eina mark leiksins, Spánn komst áfram og hampaði að lokum heimsmeistaratitlinum.
Ári eftir HM-ævintýrið í Suður-Afríku fór Paragvæ nærri því að vinna það einstaka afrek að verða Álfumeistari án þess að vinna leik. Liðið skreið upp úr riðlakeppninni á Copa America 2011 eftir að hafa gert þrjú jafntefli. Í fjórðungsúrslitum gerði liðið markalaust jafntefli við Brasilíu og vann svo vítakeppnina 2:0. Sömu örlög biðu Venesúela eftir markalaust jafntefli og tap í vítakeppni en að lokum reyndust Úrúgvæmenn ofjarlar Paragvæ í úrslitaleiknum í Argentínu.
Hallar undan fæti
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að hafa komist í fjórar úrslitakeppnir HM í röð var Paragvæ kippt rækilega niður á jörðina í undankeppni HM 2014 þar sem liðið endaði í neðsta sæti. Árið eftir komst Paragvæ í undanúrslitaleik Copa America eftir að hafa slegið Brasilíu úr leik í vítakeppni, til þess eins að fá 6:1 skell gegn Argentínu. Óvænt tap á heimavelli í lokaleiknum gegn botnliði Venesúela kostaði Paragvæ umspilssæti fyrir HM 2018 í Rússlandi. Liðið var fjarri því að komast á HM 2022 og liðinu tókst ekki að komast lengra en í fjórðungsúrslit á Copa America á árunum 2016 til 2021.