Ódysseifur (skáldsaga)
Höfundur | James Joyce |
---|---|
Upprunalegur titill | Ulysses |
Þýðandi | Sigurður A. Magnússon |
Land | Írland |
Tungumál | Enska |
Útgefandi | Shakespeare and Company |
Útgáfudagur | 2. febrúar 1922 |
ISBN | ISBN 9979304375 |
Ódysseifur (enska: Ulysses) er skáldsaga eftir James Joyce sem kom út að hluta í hinu ameríska tímariti The Little Review frá mars 1918 til desember 1920, en í heild sinni og sem bók 1922, í París. Ódysseifur er talinn vera ein helsta skáldsaga 20. aldarinar. Halldór Laxness sagði t.d. að hún „verkar á nútímamenn einsog Fjallið eina“. Ódysseifur 1–2 kom út á íslensku 1992–1993 í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar, með formála og skýringum.
Staðfræði og helstu persónur
[breyta | breyta frumkóða]Skáldsagan gerist öll á einum fimmtudegi í Dyflinni, þann 16. júní árið 1904. Hún hefst klukkan átta um morguninn þegar Stephen Dedalus, 22 ára, hallar sig út yfir brjóstriðið á Martello-turni, þar sem hann býr, og horfir út á hið „horgræna og punghemjandi haf“. Á sama tíma, eins og kemur fram í fjórða kafla bókarinnar, er auglýsingasmalinn Leopold Bloom, 38 ára, að útbúa sér morgunverð, steikt nýru, að Eccles Street 7. Á hæðinni fyrir ofan hann sefur eiginkona hans, Molly, 34 ára, í rekkju sinni, þar sem hún á seinnipart dags eftir að njóta ásta með elskhuga sínum. Þessar þrjár persónur, sem eru aðalpersónur skáldsögunnar, samsvara Telemakkosi, Ódysseifi og Penelópu í Ódysseifskviðu og eru þær sem skáldsagan vefur saman við óteljandi smáatburði eins dags en bókin endar heima hjá Leopold Bloom, milli tvö og þrjú á föstudagsmorgni. Engin þessara persóna birtist þó í öllum köflum skáldsögunnar. Stephen Dedalus er í aðalhlutverki fyrstu þrjá kaflana, og í þeim fimmtán köflum þar sem Leopold Bloom er í aðalhlutverki er Stephen aðeins í aukahlutverki í fjórum þeirra. Molly kemur aðeins fyrir sem brotabrot og hugsanir í fyrstu 17 köflunum en er ein og í aðalhlutverki í 18 kafla, þeim síðasta í bókinni. Sá kafli hneykslaði mjög marga og varð til þess að höfundurinn var ákærður á sínum tíma.
Skipting Ódysseifs eftir atburðum í Ódysseifskviðu
[breyta | breyta frumkóða]- I: 1. Telemakkos. 2. Nestor. 3. Próteifur.
- II: 4. Kalýpsó. 5. Lótófagar. 6. Hades. 7. Eólos. 8. Lestrýgónar. 9. Skylla og Karybdís. 10. Skellibjörg (eða Villihamrar). 11. Sírenurnar. 12. Kýklópurinn. 13. Násíka. 14. Uxar Sólarguðsins. 15. Kirka.
- III: 16. Evmeos. 17. Íþaka. 18. Penelópa.